Skip to main content

Norræni heilunarskólinn – starfsemi hefst 12. janúar 1985

By janúar 2, 1985apríl 16th, 2021Fréttir

Norræni heilunarskólinn var stofnaður í Danmörku árið 1979 af Jeanne de Murashkin (Ananda Tara Shan). Síðan þá hefur skólinn elfst og starfa nú fimm skólar í Danmörku, einn í Finnlandi, einn í Ástralíu og nú hér á landi frá og með 12. janúar 1985. Skólastjóri skólans á Íslandi er Jytta Eiriksson. Markmið skólans er að veita fræðslu um þau efni sem hingað til hafa verið nefnd dulræn ásamt því að kenna heilun. Skólinn leggur áherslu á að nemendur hans öðlist skilning á framþróun sálarinnar, hvernig hún öðlast margþætta reynslu sem hver jarðvist eða endurfæðing hefur í för með sér um leið og hún vex að þroska. Hann leitast við að auka þekkingu nemenda sinna á hinum andlega raunveruleika, og kennir að þeir sem lengst eru komnir á þróunarbrautinni búi yfir ótakmörkuðum velvilja, þekkingu og kærleika, og vinni stöðugt í þágu mannkynsins alls.

Að fornu tíðkaðist sögnin "að heila"í norrænu máli og merkti að bæta, gera einhvern heilan eða lækna. Því hefur verið ákveðið að þýða enska orðið "healing" með heilun og nafnorðið healer með heilari. Enska orðið healing á sér langa sögu og tengist gjarnan náttúrulækningum, orkulækningum og huglækningum.