Ananda Tara Shan, stofnandi Guðspekisamtakanna
Ananda Tara Shan fæddist í Danmörku 25. september 1946. Áhugi hennar á andlegum málum var fyrir hendi frá unga aldri og eftir að hafa stundað nám í hugleiðslu og heilun í tvö ár gekk hún árið 1975 í Guðspekifélagið í Danmörku. Hugmynd hennar var að skapa lifandi guðspekimiðstöð og hagnýta guðspekina með því að stofna leikskóla og skóla. Áköf þrá hennar eftir að starfa fyrir Helgistjórnina varð til þess að hún sagði skilið við Guðspekifélagið og starfaði sjálfstætt með hópnum sem hafði myndast í kringum hana. Hún stofnaði heilunarskóla og gaf út bókina 17 þrep til fullkomnunar. Árið 1982 gerðist Ananda lærisveinn Maitreya og fluttist til Melbourne í Ástralíu. Þar byrjaði Ananda með námskeið þar sem hún kenndi um Helgistjórnina, geislana sjö, heilun ofl. Árið 1991 flutti hún til Nýja Himalaya athvarfsins í Daylesford, en Daylesford er lítið sveitaþorp í um eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Melbourne. Starf hennar þar og í Melbourne óx jafnt og þétt og varð til þess að Félag um Maitreya guðspeki var stofnað 1991, Guðspekisamtökin 1994 og Hjartaflæði á Heimsvísu 2001. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Nýja Himalaya í Daylesford. Þar er einnig Kirkja Maitreya fyrir öll trúarbrögð sem Ananda stofnaði ásamt Kirkju hins upprisna lífs. Ananda lést í Ástralíu 16. nóvember 2002 en starfi hennar og samtakanna er fram haldið af félagsmönnum um allan heim.
Ananda Tara Shan var mikill andlegur kennari og dulspekingur, kennsla hennar var og er einstök. Hún kenndi hagnýta guðspeki, hina fornu visku, og lagði ríka áherslu á að fólk lifði frá hjartanu, léti hjartað ráð för. Hún kallaði hina nýju guðspeki “Maitreya guðspeki”, en hún vann náið með Meistara sínum Herranum Maitreya við störf sín. Hluti af þessu samstarfi er Hjartaflæði, en það er orka sem streymdi fyrst niður á hið efnislega svið jarðarinnar á gamlárskvöldi árið 2001 og var sögulegur viðburður í andlegri sögu jarðarinnar. Útgeislun áru Herrans Maitreya yfirskyggir nú jörðina með mildum bleikum og gullnum litbrigðum, en því er lýst nánar á eftirfarandi hátt:
„Orka sem við köllum Hjartaflæði streymir nú niður á jarðneskt-eterískt svið jarðar og inn í hjarta mannkynsins.
Hjartaflæði er kærleikur og ljós Hjarta Maitreya sem geislar frá hinu innra hjarta plánetunnar jörð. Það geislar inn í öll hjörtu sem eru opin fyrir útgeislun Hjarta Alheimsins þar sem það hefur lækkað tíðni orku sinnar svo að allir geti fundið Hjartaflæði sem óska að ganga Veg Hjartans nú og í framtíðinni. . .
Hjartaflæði er því orka Hjartans sem finnst á jörðu sem mikið umlykjandi Hjarta, takmarkalaust í samúð sinni
til mannkynsins. Hjartaflæði streymir inn í sérhvert mannlegt hjarta sem opnar sig fyrir því.
Hjartaflæði er virkni guðdómlegs Kærleika og guðdómlegur Kærleikur er æðsta orka allrar guðdómlegrar
orku. Það veldur samstundis breytingum hjá þeim sem opna sig fyrir því.“
(The Energy of Heart Flow: Ananda Tara Shan, 2002).
Ananda lagði ríka áherslu á að nemendur hennar tileinkuðu sér að lifa guðspekilegu lífi, en læsu ekki bara bækur um guðspeki. Til þess að svo mætti verða miðlaði hún leiðbeiningum um andlegt líf frá Maitreya og kom á framfæri hugleiðslukerfi (Shan Theosophical Meditation System) og heilunarkerfi (Udana Spiritual Healing System), ásamt því að semja möntrur, bænir og ákallanir svo og þjónustuform fyrir jarðarheilunar þjónustur.
Ananda snerti alla strengi mannlegs lífs og sem dæmi um efniþætti sem kennsla hennar náði yfir má nefna Meistarana, Helgistjórn jarðar, karma og endurholdgun, rétt mannleg samskipti, Veg Hjartans, hugleiðsluiðkun, gleði, frið, kærleika, réttlæti, hópastarf, að starfa fyrir ljósið, uppstigningu, líf og dauða, möntruiðkun, svo og lögmál meinleysis, -umburðarlyndis, -kærleika, -gleði, -auðmýktar, – jafnvægis og -þjónustu. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að hinir mörgu hópar um allan heim sem þjóna jörðinni, vinni saman.
Stór hluti af starfi Anöndu var helgaður heimsfriði, hún stjórnaði jarðarheilunarþjónustum, fór með fólk í friðarferðir til ýmissa staða á jörðinni, auk þess sem hún vann mikið starf á innri sviðum, nær allan sólarhringinn, í vöku og svefni, með það að markmiði að skapa frið á jörðinni sem og heilun mannkynsins og jarðarinnar.
Ananda hafði frábært skopskyn og hún hvatti fólk alltaf til að vera í sambandi við gleðina í lífinu. Annað sem einkenndi hana var óhagganleg trú hennar. Í gegnum þykkt og þunnt trúði hún alltaf á mátt góðleikans og kaus að sjá hið góða í hverri manneskju. Eins og aðrir miklir leiðtogar sýndi hún þann sjaldgæfa eiginleika að sinna hinum smæstu verkum hins daglega lífs, jafnframt því sem hún starfaði sleitulaust fyrir æðri hag mannkynsins og jarðarinnar.